Ákvæði í samkeppnislögum, sem gefur Samkeppniseftirlitinu heimild til að grípa til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða hefur skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns, er hugsanlega í andstöðu við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þetta er mat Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, lögmanns hjá LEX lögmannsstofu sem hefur sérhæft sig í samkeppnisrétti.

Ákvæðinu sem um ræðir var bætt við samkeppnislög árið 2011, en um er að ræða c-lið 1. milligreinar 16. greinar laganna. Með því er Samkeppniseftirlitinu heimilað að grípa til aðgerða til að bregðast við samkeppnishömlum, jafnvel þó að þær orsakist ekki af samrunum eða brotum fyrirtækja á bannreglum samkeppnislaga. Heimildir stofnunarinnar eru víðtækar og fela meðal annars í sér úrræði til að breyta atferli og skipulagi.

Háð túlkun eftirlitsins

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Heiðrún að þær aðstæður eða háttsemi sem umrætt lagaákvæði nær til geti verið fyrirtækjunum sjálfum algjörlega óviðkomandi, og einungis einkenni á markaðnum sem þau starfa á.

„Það er þá hægt að grípa inn í þær aðstæður án þess að fyrirtækin hafi nokkuð til saka unnið. Það er ekki talið upp eða skilgreint frekar í athugasemdum frumvarps til laganna hvað nákvæmlega felst í þessu. Þetta er þá alfarið háð túlkun framkvæmdarvaldsins, í þessu tilviki Samkeppniseftirlitsins,“ segir hún.

Heiðrún segir að skilgreining laganna á þeim aðstæðum sem átt er við sé mjög opin. „Það getur í raun allt fallið þarna undir, sem er til þess fallið að hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Hvað það getur í raun verið – maður getur ekki ímyndað sér hvenær það er nokkurn tímann tæmandi talið. Það geta svo margir þættir haft einhvers konar skaðleg áhrif á samkeppni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .