*

laugardagur, 18. ágúst 2018
Innlent 22. febrúar 2018 14:01

Gæti stefnt í annað metár

Síðasta ár var metár í rekstri Landsvirkjunar, en innstæða er fyrir enn betri afkomu í ár að mati forstjóra Landsvirkjunar.

Snorri Páll Gunnarsson
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Haraldur Guðjónsson

Í 52 ára sögu Landsvirkjunar hefur framleiðsla og sala á raforku aldrei verið meiri en á síðasta ári. Tekjurnar og hagnaðurinn slógu einnig met. Fyrirtækið hefur aldrei haft það jafngott og núna - og gætu næstu ár orðið enn betri. 

Rekstrartekjur Landsvirkjunar námu 483 milljónum Bandaríkjadala á síðasta ári eða því sem nemur 50,2 milljörðum króna. Hagnaður af grunnrekstri, mældur í hagnaði fyrir óinnleysta fjármagnsliði, nam 153,4 milljónum dollara eða 16 milljörðum króna.

Selt magn af raforku nam 14,3 teravattsstundum, sem er yfir 5% aukning frá fyrra ári. Slegin voru vinnslumet í fimm aflstöðvum á árinu: í Fljótsdalsstöð, Sigöldustöð, Búðarhálsstöð, Sultartangastöð og Steingrímsstöð. Ytri aðstæður voru einnig fyrirtækinu hagstæðar. Rekstur viðskiptavina Landsvirkjunar gekk vel. Um 80% af raforkusölu Landsvirkjunar eru til stórnotenda, einkum í áliðnaði, en álverð í dollurum hækkaði um 23% á árinu. Þá jukust flutningstekjur og hafði styrking krónunnar gagnvart Bandaríkjadal jákvæð áhrif, þar sem tekjur vegna heildsölu og hluti flutningstekna eru í íslenskum krónum.

Áætlanir Landsvirkjunar gefa til kynna að rekstur fyrirtækisins haldi áfram að batna. Áfram verður lögð áhersla á frekari lækkun skulda. Tvær nýjar virkjanir verða teknar í gagnið í ár, en ásamt Búðarhálsvirkjun, sem gangsett var árið 2014, mun vinnslugeta Landsvirkjunar aukast um 12% eða 1,6 teravattsstundir.

Áframhaldandi hækkun álverðs mun hafa jákvæð áhrif á afkomu Landsvirkjunar, en Seðlabankinn spáir því að álverð muni hækka um 9% í ár. Endursamningar hafa verið tryggðir við Norðurál og Elkem um raforkuverð sem munu taka gildi árið 2019, en Elkem hefur þó vísað ákvörðun um rafmagnsverð til gerðardóms. Kísilver PCC á Bakka mun hefja töku rafmagns á fyrri hluta þessa árs og þá hefur mikill vöxtur verið í raforkusölu til gagnavera.

Landsvirkjun gefur ekki út afkomuspár, en forstjóri Landsvirkjunar útilokar ekki að það stefni í annað metár.

„Það er innstæða fyrir betri afkomu í ár og á næsta ári, og ár frá ári eftir það,“ sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á kynningarfundi Landsvirkjunar um uppgjör ársins 2017 í síðustu viku. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Landsvirkjun uppgjör