Áfrýjunarréttur í Bandaríkjunum samþykkti á mánudag endurupptöku kæru á hendur 16 stórra banka og fjármálastofnana þar sem þær eru sakaðar um að hafa haft óeðlileg áhrif á Libor vexti sér í hag.

Libor sem stendur fyrir London inter bank rate, eru millibankavextir sem notaðir eru í viðskiptum uppá þúsundir milljarða og stýra vöxtum á kreditkortum, námsmannalánum og húsnæðislánum sem dæmi. Millibankavextirnir eru reiknaðir út frá meðaltali á mati helstu banka í London á hve mikla vexti þeir þyrftu að greiða fyrir millibankalán.

Gríðarlegir hagsmunir í húfi

Í kæruferlinu sem hófst árið 2011 saka fjárfestar stóru bankana um að hafa haldið Libor vöxtunum niðri á meðan efnahagskrísunni stóð til að auka tekjur sínar eða til að láta líta út fyrir að fjárhagsstaða þeirra væri betri en í raun. Snemma árs 2013 vísaði dómstóll í Manhattan kröfunum frá, þrátt fyrir að á þeim tíma hefðu Barclays, UBS og Royal Bank of Scotland þegar samið um greiðslur uppá 2,5 milljarð bandaríkjadala í sektir.

Með ákvörðun áfrýjunardómstólsins á mánudag verður kæran send á ný á lægra dómstig. Í áliti dómstólsins kemur jafnframt hve gífurleg áhrif kæran geti haft á bankana sem gætu orðið gjaldþrota í kjölfarið, en einnig ýtt undir frekari kærur.