Erlendur Magnússon, fráfarandi stjórnarformaður Borgunnar, sagði í ræðu sinni á aðalfundi Borgunar að nýrri tilskipun Evrópusambandsins um greiðsluþjónustu gæti falist ógn við greiðslumiðlunarkerfi Evrópu. Um er að ræða svokallaða PSD2 (Payment Service Directive 2) tilskipun sem Erlendur telur geta leitt til aukinna svika og jafnvel kerfisáhættu.

Þá sagði hann alls ekki ljóst hver eigi að bera kostnaðinn af þjónustu sem tilskipunin telur að eigi að vera endurgjaldslaus. „ Það getur engan veginn gengið upp til lengdar að einstaka fjármálafyrirtæki beri kostnað sem utanaðkomandi aðili stofnar til og hefur jafnvel tekjur af,“ sagði Erlendur.

Hann sagði jafnframt að lítil eða yfirborðsleg þekking embættismanna og stjórnmálamanna á fjármálakerfinu geti orðið til þess að framfylgni síbreytilegs regluverks feli í sér meiri kostnað en ábata.

Hann beindu þó orðum sínum fyrst og fremst erlendis. „Hér er ekki við íslenska stjórnmálamenn eða embættismenn að sakast, nema að litlu leyti, því Íslendingar geta ekki tekið þátt í alþjóðlegri starfsemi án þess að innleiða þessar reglur. Ég vil hins vegar beina því til innlendra stjórnvalda að bæta ekki ofan á þetta reglugerðarfargan með séríslenskum viðbótar reglum og þrengri túlkunum en almennt tíðkast, því íslensk fyrirtæki eru lítil í alþjóðlegum samanburði og hlutfallslegur kostnaður þeirra af framfylgni þessara reglna almennt meiri en hjá stórum alþjóðlegum fyrirtækjum,“ sagði Erlendur.