Fyrirtæki sem þróa og selja hugbúnað og tækni í sjálfkeyrandi bíla á borð við Google-bílinn og Model S og X Tesla Motors telja að um 33 þúsund líf gætu bjargast árlega í Bandaríkjunum ef öllum bílum væri skipt út fyrir sjálfkeyrandi bifreiðar. Nú þegar vinnur fjöldi fyrirtækja hörðum höndum að því að framleiða fullkomna sjálfsakandi bifreið - sem gerði mannlegum farþegum bílsins kleift að slaka á og leyfa gervigreind og aksturstölvu að sjá alfarið um akstur bifreiðarinnar.

Sumir telja að bílaframleiðendurnir sjálfir muni koma illa út úr slíkri gervigreindarvæðingu. Bílar yrðu pantaðir gegnum Uber eða álíka þjónustur, bílstjóralausir, og æ færri teldu sig þurfa að kaupa sér sinn eigin bíl. Þar eð óþarft væri að ráða mannlegan leigubílstjóra í vinnu myndi verð hinnar meðalferðar í leigubíl lækka umtalsvert. Óvíst er hvernig aðstæður yrðu, ef til þess kæmi, en sumir matsaðilar telja að um 25 þúsund manns í bílageiranum myndu missa vinnuna.

Bílaframleiðendur hafa keypt sér hluti í leigubílafyrirtækjum á borð við Uber og Lyft - en General Motors keypti 10% hlut í Lyft fyrir skömmu síðan. Fyrirtækin tvö eru metin á himinháar upphæðir þar eð margir fjárfestar telja að þjónusturnar verði umfangsmiklar og mögulega einn vinsælasti samgöngukostur framtíðarinnar. Leigubíla-, rútu- og vöruflutningabílstjórar í Bandaríkjunum eru um 2,6 milljón talsins, og sjálfstýring myndi þýða að þeir þyrftu að leita sér nýrra starfa.

Sjálfstýringarvæðingin yrði þó ekki umsvifalaus, heldur hægfara og langdregin. Unnið hefur verið að þróun sjálfkeyrandi kerfa lengi vel. Því myndu Bandaríkjamenn að öllum líkindum ekki sitja uppi með tveggja prósentustiga aukningu í atvinnuleysi á einni nóttu - atvinnubílstjórarnir fyndu sér einfaldlega vinnu þar sem þörf er á mannlegum starfskrafti. Til dæmis má nefna að frá 1979 hefur vélvæðing í framleiðslugeira Bandaríkjanna komið í stað starfa sem nema meira en 11 prósentum vinnuafla þjóðarinnar, en hagkerfinu hefur vegnað ágætlega fyrir vikið.