Andvirði Bitcoin rafmyntarinnar sem stjórnvöld í Búlgaríu lögðu hald á í maí síðastliðnum er orðið það hátt að ríkisstjórnin gæti greitt niður fimmtung af skuldum sínum.

Tugir manna voru handteknir fyrir skipulögð tollasvik þar sem hópur manna notaði rafmyntina til að komast hjá eftirliti að því er New Zealand Herald greinir frá, en handtakan var liður í samevrópsku lögregluverkefni.

Í handtökunum voru handlögð Bitcoin að andvirði 500 milljón Bandaríkjadala á sínum tíma, en með þeirri miklu hækkun sem verið hefur undanfarið á virði Bitcoin sem Viðskiptablaðið hefur sagt frá , er andvirði þeirra um 3,3 milljarðar dala, eða sem samsvarar 347 milljörðum íslenskra króna.

Verð á Bitcoin hefur hækkað skarpt síðan viðskipti hófust með framvirka samninga í myntinni á sunnudag eins og Viðskiptablaðið greindi frá .