Undirbúningur fyrir sólarkísilverksmiðju Silicor Materials á Grundartanga virðist vel á veg kominn og verða meginsamningar væntanlega undirritaðir í lok mars eða byrjun apríl næstkomandi. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Þar kemur fram að gangi þetta eftir gætu framkvæmdir hafist í sumar eða haust við byggingu á verksmiðjunni. Hins vegar á eftir að ganga frá staðfestingu ívilnanasamnings og er beðið svara frá Seðlabankanum vegna gjaldeyrishafta.

Davíð Stefánsson, ráðgjafi Silicor Materials, segir í samtali við Morgunblaðið að verið sé að klára samninga vegna tækjabúnaðar og framkvæmda við sjálfa bygginguna, bæði við innlenda og erlenda verktaka. Þá sé vonast til að gengið verði frá orkusölusamningi við dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, Orku náttúrunnar, á næstunni.