Bandaríski fjárfestirinn og vogunarsjóðsstjórinn Paul Tudor Jones býst við því að þær sveiflur sem einkennt hafa árið á hlutabréfamörkuðum vestanhafs muni halda áfram á nýju ári. „Ég held við munum sjá mikil af því sama sem er töluvert meira flökt (e. volatility),“ sagði Jones í viðtali við CNBC í dag.

„Það er mjög auðvelt að segja að maður sé mjög langur eða mjög stuttur varðandi markaðinn. Ég sé þetta nokkurn veginn sem tvíþættan markað. Á næsta ári gæti hreyfingin frá þeim stað sem við erum í dag orðið 10 niður, 10% upp eða jafnvel 15% í aðra hvora áttina.“

Samkvæmt Jones myndi lækkun verða drifin áfram af lánveitingum og lækkandi hrávöruverði. „Við sitjum líklega á stórri alþjóðlegri lánveitingabólu. Ég vona að ég sé ekki að vanmeta mögulegu neikvæðu áhrifin sem skapast ef hún springur.“

Á móti bendir Jones á að möguleg lækkun hlutabréfaverðs muni leiða til þess að Seðlabanki Bandaríkjanna muni halda aftur af stýrivaxtahækkunum á nýju ári. Búist er við því að bankinn hækki vexti á fundi sínum í næstu viku. „Það eina sem ég get sagt er að sú hækkun gæti orðið sú síðasta í töluverðan tíma,“ sagði Jones.

Paul Tudor Jones sem er stofnandi Tudor Investments hefur verið þekktur fyrir að hafa stórar skoðanir á markaðnum og fjárfesta í samræmi við þær. Jones sem er metinn á um 4,5 milljarða dollara er einna þekktastur fyrir að hafa spáð fyrir hrunið á mörkuðum árið 1987.