Ríkisolíufélagið í Venesúela, PDVSA, gæti þurft að semja um afborgun á skuldabréfum sínum sem á að eiga sér stað í október vegna lágs olíuverðs að því er Hector Andrade, framkvæmdastjóri skipulags hjá fyrirtækinu segir. „Ég býst við að það séu auknar líkur á því,“ sagði Andrade þegar hann var spurður út í málið að því er Reuters greinir frá.

Sagði hann fyrirtækið stefna að því að fjárfesta andvirði 50 milljarða Bandaríkjadala, eða 5.250 milljörðum íslenskra króna, á næstu sjö árum til að auka við framleiðslugetu fyrirtækisins um 1 milljón olíufata á dag. Í dag framleiðir landið um 2 milljónir olíufata, en vegna efnahagslegrar óstjórnar og verðbólgu, hefur lágt olíuverð haft mjög slæm áhrif á landið.

Á sama tíma hefur OPEC ríkið dregið úr framleiðslu en félagið hefur átt í vanda með að viðhalda fjárfestingum í olíulindum sínum, en um er að ræða stærsta þekkta olíuforða í heiminum.