Tvenns konar ábyrgð er á innstæðum landsmanna í viðskiptabönkum og sparisjóðum ef slíkir aðilar eru ekki færir um að borga út innstæður. Í fyrsta lagi tryggir Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) að lágmarki 20.877 evrur, jafnvirði 2,9 milljóna króna, að því gefnu að eignir sjóðsins hrökkvi til. Í öðru lagi hafa stjórnvöld lýst því yfir að ríkisábyrgð sé á öllum innstæðum.

Innstæður skattskyldra einstaklinga í innlendum viðskiptabönkum námu um 480 milljörðum króna í lok árs 2014 samkvæmt tölum ríkisskattstjóra. Lágmarkstrygging TIF náði þá til um 59% þeirrar upphæðar, en vegna gengisstyrkingar krónunnar hefur þetta hlutfall líklega lækkað síðan.

20% landsmanna áttu innstæður yfir 20.887 evrum í lok árs 2014 og væri þessi hópur sá eini sem myndi hafa beinan ábata af ríkisábyrgðinni ef eignir TIF myndu duga fyrir lágmarksútgreiðslum. Það verður reyndar að teljast ólíklegt, enda námu eignir A-deildar TIF aðeins um 14 milljörðum í lok árs 2014.

Hvernig sem á það er litið er ljóst að efnaðasti hópur landsins myndi hafa mestan beinan ábata af því ef ríkið myndi ábyrgjast innistæður kæmi til greiðslufalls hjá innlánsstofnun. Ríkustu 10% landsmanna áttu helming allra innstæðna í lok árs 2014. Aftur á móti voru innstæður aðeins um 13% af heildareignum þessa fólks, á meðan efnaminni helmingur landsmanna geymdi 51% af eignum sínum í formi innstæðna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .