Hátt verð á gagnaflutningum til og frá Íslandi stendur í vegi fyrir uppbyggingu gagnavera hér á landi og er stærsta einstaka atriðið sem hamlar uppbyggingu gagnaversiðnaðarins. Þetta segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, framkvæmdastjóri Advania Datacenters, en Advania er einn stærsti rekstraraðili gagnavera hér á landi.

„Þetta er náttúrulega aðeins mismunandi eftir því hvaða svæði maður ber sig saman við, en það má segja að í grófum dráttum sé verðið 5-10 sinnum dýrara á Íslandi,“ segir hann.

Klemmdir upp við vegg

Farice, félag í eigu íslenska ríkisins, Landsvirkjunar og Arion banka, rekur þá tvo sæstrengi sem öllu máli skipta fyrir fjarskipti til og frá landinu. Eyjólfur segir að stjórnvöld tali vel um gagnaversiðnaðinn á tyllidögum, en segir að stjórnvöld verði þá með einum eða öðrum hætti að koma að því að lækka verð á gagnaflutningum til landsins.

Aðspurður segir Eyjólfur að gagnaver á Íslandi gætu fengið traustari viðskiptavini ef verð á gagnaflutningum væri lægra. Bitcoin-grafarar hafa hingað til verið langstærsti einstaki hópur viðskiptavina íslenskra gagnavera, að sögn Eyjólfs vegna þess að þeir þurfa eiginlega enga bandvídd.

„Meðan raforkuverð á Íslandi var töluvert lægra en í löndunum í kringum okkur skipti þetta ekki alveg eins miklu máli,“ segir Eyjólfur. „Nú er raforkuverð orð- ið svo hrikalega lágt á mörgum stöðum í heiminum. Þar erum við bara klemmdir upp við vegg. Við getum ekki verið með ódýrara rafmagn – við erum alveg samkeppnishæf þar en við erum ekki langt umfram mörgum öðrum svæðum – og svo er bandvíddin miklu dýrari.“