Mikil aukning á innflutningi í október og minni afgangur af vöruskiptum en í fyrra skýrist hugsanlega af því að gagnaver Verne Global kom til landsins í mánuðinum í gámum. Fjárfesting vegna fyrsta áfanga gagnaversinns af fjórum er áætluð um 20 milljarða króna.

Þetta segir Greining Íslandsbanka um upplýsingar Hagstofunnar um vöruskipti við útlönd.

Vöruskipti við útlönd voru hagstæð um 8,0 milljarða króna í október, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, sem birtar voru í morgun. Þetta er 3,6 milljörðum minna en í október í fyrra.

Greining Íslandsbanka bendir á það í Morgunkorni sínu að aukning í innflutningi milli ára skýrist af mörgum liðum, enda vöxtur í flestum liðum innflutnings. Þó munar þarna mestu um innflutning fjárfestingarvara sem nam 11,7 milljörðum króna í mánuðinum. Það er 3,3 milljarða króna aukning á milli ára.