Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) gagnrýna og lýsa miklum vonbrigðum með þá ákvörðun verðlagsnefndar búvara að hækka heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum frá og með 1. ágúst næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

Þar segir að ákvörðunin komi á afar viðkvæmum tíma í kjölfar erfiðra kjarasamninga þar sem markmiðið sé að færa launafólki í landinu verulega kaupmáttaraukningu. Forsendan fyrir því að það markmið náist sé að unnt verði að halda aftur af hækkunum á vöru og þjónustu.

„Sú hækkun sem nú hefur verið ákveðin á þeirri nauðsynjavöru sem mjólk og mjólkurvörur eru, er til þess fallin að tefla í tvísýnu að markmið kjarasamninganna náist, sérstaklega sker í augu sú gífurlega hækkun sem hefur verið ákvörðuð á smjöri, eða um 11,6%.,“ segir í tilkynningunni.

Þá segja samtökin að einnig sé afar óheppilegt þegar svo langt líði á milli verðbreytinga á mjólk, en síðasta breyting átti sér stað 1. október 2013. Áhrif slíkra breytinga verði mun meiri en ella þegar svo langt líði á milli.

„Þessi ákvörðun varpar þó fyrst og síðast ljósi á það sérstaka kerfi sem notað er til að ákvarða heildsöluverð á mjólk, þar sem það er á valdi opinberrar nefndar að ákvarða slíkt. Að mati samtakanna er brýnt að verðlagning þessarar vöru lúti sömu lögmálum og verðlagning annarrar vöru.,“ segir að lokum.