Félag atvinnurekenda (FA) gagnrýnir þá ákvörðun Kristján Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að fækka fulltrúum í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga úr þrettán í sjö.

Samráðshópurinn var síðast skipaður af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í janúar og þá átti FA meðal annars fulltrúa í nefndinni.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir í frétt á vef félagsins, að þessi ákvörðun ráðherrans veki ýmsar spurningar. Hann bendir á að að starfshópur um endurskoðun búvörusamninga hafi orðið til eftir að búvörusamningar ríkisins og Bændasamtakanna urðu fyrir mjög harðri gagnrýni úr ýmsum áttum í samfélaginu.

„Stofnun hópsins var af hálfu þáverandi meirihluta atvinnuveganefndar hugsuð til að efna til „þjóðarsamtals“ og skapa „þjóðarsátt“ um greinina eins og Jón Gunnarsson, þáverandi formaður nefndarinnar, orðaði það,” segir á vef FA.

„Hvernig skyldi Kristján Þór Júlíusson ætla að viðhalda breidd í samtalinu með því að fækka í hópnum um hartnær helming? Og ætli hann endurtaki þann leik að halda þeim samtökum sem hafa talað hvað einarðlegast fyrir auknu frelsi og samkeppni í landbúnaðinum utan við samtalið?“ spyr Ólafur.