Persónulegar fjárfestingar Yngve Slyngstad, forstjóra Norska olíusjóðsins, eru nú undir smásjá norskra fjölmiðla. Eru þær taldar orka verulegs tvímælis vegna stöðu hans sem forstjóra.

Fram kemur á vef Norska ríkissjónvarpsins að Slyngstad hafi til dæmis fjárfest í norska flugfélaginu Norwegian fyrir 600 þúsund norskar krónur. Er það talið setja hann í erfiða stöðu þar sem Norski olíusjóðurinn hefur fjárfest töluvert í SAS og Ryanair, sem eiga í verulegri samkeppni við Norwegian.

Hefur forstjórinn verið harðlega gagnrýndur eftir að upp komst um fjárfestingarnar. Tina Söreide, sérfræðingur við Háskólann í Bergen, segir að vissulega hafi Slyngstad rétt til þess að kaupa hlutabréf persónulega, en slík viðskipti eigi að vera uppi á borðinu í ljósi stöðu hans og vandamálið sé að almenningur fái ekki vitneskju um hlutabréfaeign hans. Þetta sé til þess fallið að grafa undan stjórn olíusjóðsins.