*

laugardagur, 19. janúar 2019
Innlent 12. maí 2017 09:39

Gagnrýni Herdísar sögð misskilningur

Stjórn VÍS segir gagnrýni Herdísar Fjeldsted hljóta að byggja á misskilningi því hún hafi ekki sótt stjórnarfundi eftir að hún hætti.

Ritstjórn

Stjórn VÍS segist í yfirlýsingu sem það sendi frá sér telja sig knúna til að koma á framfæri upplýsingum vegna frétta um sölu stórra hluthafa á hlutum í félaginu.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa þrír stórir lífeyrissjóðir minnkað hluti sína í fyrirtækinu í kjölfar deilna núverandi og fyrrverandi stjórnarformanna fyrirtækisins, sem fjallað hefur verið um áður.

Í yfirlýsingu VÍS segist stjórnin leggja ríkja áherslu á að fylgja lögum og öðru sem tryggi góða stjórnarhætti. Segir stjórnin að ekki verði betur séð en gagnrýni Herdísar D. Fjeldsted fyrrum stjórnarformanns byggi á ágiskunum og segja hana koma stjórninni á óvart.

Bendir stjórnin á að hún hafi aldrei setið stjórnarfund í félaginu eftir að ný stjórn skipti með sér verkum í kjölfar aðalfundar í mars síðastliðnum, og ályktar yfirlýsing stjórnarinnar út frá því að gagnrýnin byggi á ágiskunum.

Jafnframt kemur fram í yfirlýsingunni að félagið vilji árétta að nýleg kaup á hlut í fjárfestingarbankanum Kviku sé skilgreind sem eign í fjárfestingarbók og svo verði áfram, og engin áform séu um breytingar á því. Segir þar einnig að núverandi stjórn áformi ekki að skipta sér að einstökum fjárfestingum í bókinni, og að slíkt hafi aldrei komið til tals.

Undir yfirlýsinguna skrifa stjórn VÍS, þau Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir núverandi formaður stjórnar, Helga Hlín Hákonardóttir, Gestur B. Gestsson og Valdimar Svavarsson.