Hagsmunasamtök heimilanna hafa birt auglýsingar undanfarna daga og hafa slegið fram rakalausum fullyrðingum um nýlegt frumvarp atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um neytendalán. Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon í tilkynningu. Hann setur athugasemdir við þær fullyrðingar að þetta nýja frumvarp eigi að auðvelda bönkunum að ljúga að neytendum þar sem tekið er tillit til verðbótaþáttarins við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar verðtryggðra lána.

Steingrímur segir þennan útreikning vera til þess að hjálpa neytendum að bera saman lánssamninga. Í frumvarpinu er sérstaklega kveðið á um að lánveitanda beri að veita upplýsingar um sögulega þróun verðtryggðra og óverðtryggðra lána. Hann bendir einnig á að í frumvarpinu er skylda að framkvæma mat á lánshæfi áður en lánssamningur er gerður.

Að lokum tekur hann fram að tekið sé á smálánum með því að setja þak á árlega hlutfallstölu kostnaðar á árlegum grundvelli vegna slíkra lána. Þetta frumvarp kveður því á um mikilvæga vernd fyrir neytendur og tal um blekkingar og lygi í þessu sambandi eru ekki samtökunum til framdráttar, segir Steingrímur.