Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri VÍB, birti fyrir stuttu grein á vef Íslandsbanka, þar sem hann gagnrýndi drög að frumvarpi um breytingar á almannatryggingum. Samkvæmt greininni er markmið frumvarpsins að einfalda kerfið og bjóða upp á sveigjanleg starfslok. Björn segir breytingarnar þó gera mörgum lífeyrisþegum umtalsvert dýrara að ávaxta sparifé sitt.

Þó svo að margt gott sé að finna í nýja frumvarpinu, fylgja því auknar skerðingar vegna ávöxtunar sparifjár, til viðbótar við fjármagnstekjuskatt og áhrif verðbólgu. Þetta getur dregið umtalsvert úr ávöxtun eða hvatt lífeyrisþega til að leita í fjárfestingarkosti sem gefa færi á hærri ávöxtun, með tilheyrandi áhættu.

Engin frítekjumörk

Í dag eru frítekjumörk fjármagnstekna hjá Tryggingastofnun 98.640 krónur á mann, en 197.280 krónur hjá samsköttuðum aðilum. Hjón geta því ávaxtað 5 milljónir króna á hefðbundnum bankareikningi án þess að það hafi áhrif á greiðslur. Öll umframávöxtun veldur skerðingu á greiðslum TR.

Björn gagnrýnir frumvarpið sérstaklega, þar sem það kveður á um að frítekjumörk falli niður. Greiðslur lífeyris TR myndu þar með skerðast um 45% vegna vaxta. Í grein sinni gefur Björn lesendum dæmi:

Hjón flytja í minna húsnæði og fá 10 milljónir króna á milli. Þau fá 4,3% ávöxtun og fá hvort um sig 300.000 krónur á mánuði í lífeyrissjóðsgreiðslur. Samkvæmt núgildandi reglum TR skerðast árlegar greiðslur til þeirra, eftir skatt, um 56.112 kr. vegna vaxtanna en sú upphæð hækkar í 119.293 kr. (um 113%) ef óbreytt frumvarp verður að lögum.

Dregur úr vilja til ávöxtunar

Vegna sögulega hárrar verðbólgu, segir Björn Íslendinga ekki geta geymt sparifé í formi reiðufjár til lengri tíma. Því er mikilvægt að hvetja almenning til sparnaðar og ávöxtunar, en frumvarpið dregur að hans sögn verulega úr ávinningi sparifjáreigenda á lífeyrisaldri.

Björn tekur þó fram að undantekning verði áfram gerð að ávöxtun í sjóðum og hefur því ekki áhrif á greiðslur TR meðan eignin er óhreyfð. Hins vegar skerðast greiðslurnar þegar ákveðið er að selja sjóðina. Einnig mun ávöxtun séreignarsparnaðar og úttekt hans ekki skerða greiðslur.