Sérstakt veiðileyfigjald byggir á löggjöf sem heldur engan veginn, segir Helgi Áss Grétarsson, dósent í lögfræði við Háskóla Íslands.

Löggjöfin var samþykkt í tíð síðustu ríkisstjórnar en bæði núverandi ríkisstjórn og fyrrverandi ríkisstjórn settu á bráðabirgðaákvæði um að sérstaka veiðigjaldið tæki ekki gildi. Núverandi ríkisstjórn hefur boðað að reglur um sértakt veiðileyfagjald verði endurskoðaðar.

Lögrétta, félag laganema við Háskólann í Reykjavík, boðaði til fundar í síðustu viku þar sem Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, og Helgi Áss Grétarsson færðu rök fyrir því að lagasetningin um sérstaka veiðileyfagjaldið stæðist ekki löggjöf um skattlagningu.

Eigin afkoma á að ráða úrslitum
Helgi Áss segir að samkvæmt lögunum ætli ríkisvaldið að skattleggja skattþegninn þannig að það sé ekki hans eigin afkoma sem ræður úrslitum heldur einhverskonar meðaltöl. Þessi meðaltöl ætli stjórnvöld að finna út með flóknum útreikningum á grundvelli gagna sem hingað til hafi verið lögð fram af fyrirtækjum til þess að veita upplýsingar um sinn rekstur, til dæmis gögn sem nú eru send Hagstofunni. „Það er fyrst og fremst þetta sem ég gagnrýni, að skattleggja einhvern umframhagnað um 65% eða 70%, á grundvelli almennra upplýsinga um rekstur fyrirtækja í ákveðinni atvinnugrein og færa valdið við að reikna þetta alla út til stjórnvalda. Og útkoman getur verið sú að skattheimtan geti verið hærri en sem nemur hagnaði einstakra fyrirtækja,“ segir Helgi Áss. Þá spyr hann líka hvað stjórnvöld hyggist gera ef fyrirtæki neita að veita upplýsingar um rekstur sinn. Hvort þá verði tölur um rekstur þeirra áætlaðar. Yrði það tilfellið, hver ætti þá að taka að sér að áætla tölurnar.

Helgi Áss gagnrýnir líka að reglurnar geri ráð fyrir að afkomutölur í annarri grein en fiskveiðum séu notaðar sem skattstofn þegar skattur er reiknaður á útgerðarfyrirtækin. Sé útgerðarfyrirtækið til dæmis bara með úgerð en ekki fiskvinnslu þá sé verið að skattleggja slíkt fyrirtæki útfrá tölum um þá sem eru bæði með útgerð og fiskvinnslu. „Þetta gengur ekki upp með tilliti til þeirra reglna sem gilda um kröfur til skattlagningar,“ segir Helgi Áss.

Veiðileyfagjald og sérstakt veiðileyfagjald er skattur
Helgi Áss segir að menn verði að gera sér grein fyrir því að almennt veiðgjald og sérstakt veiðigjald sé skattur og þurfi að uppfylla skilyrði um skatta. „Af réttaröryggisástæðum verður alltaf að miða við það að þetta uppfylli viðmið um skattlagningu,“ segir Helgi Áss. Af þessum sökum sé löggjöfin, eins og hún er sett fram, þannig úr garði gerð að það sé ákaflega erfitt að hrinda henni í framkvæmd.

Helgi Áss segir að þegar lögin um sérstaka veiðileyfagjaldið hafi verið til meðferðar í þinginu hafi hann og fleiri lögfræðingar gert athugasemdir við lagafrumvarpið sem ekki hafi verið hlustað á. Þar nefnir hann meðal annars lögfræðinga hjá lögmannsstofunni Lex og Ragnar Hall.