Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kynnti í gær ákvörðun sína um að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5%. Er það álit nefndarinnar að ör vöxtur efnahagsumsvifa og skýr merki um vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum kalli á peningalegt aðhald. Greiningaraðilar segja ákvörðunina, sem gagnrýnd er af forystumönnum atvinnulífsins, í samræmi við spár þó greina megi stefnubreytingu hjá Seðlabankanum.

Forystumenn atvinnulífsins ósáttir

Grímur Sæmundsen er ósáttur við ákvörðun Seðlabankans og segir þá skoðun endurspegla skoðun annarra forystumanna í atvinnulífinu. Áhrifin snúi að atvinnulífinu í heild sem og almenning í landinu. „Það hafa verið færð margvísleg rök gegn því að halda vaxtastiginu jafn háu og raun ber vitni enda skerðir það raunverulega hag almennings. Þetta þarf sérstaklega að skoða með tilliti til þess að ferðaþjónustan hefur gjörbreytt öllum efnahagsforsendum í landinu og við sem störfum í greininni teljum að Seðlabankinn sé ekki að taka tillit til þeirra sterku og jákvæðu áhrifa sem ferðaþjónustan hefur á efnahaginn,“ segir Grímur.

Hann gefur lítið fyrir rök peningastefnunefndar þess efnis að ör vöxtur efnahagsumsvifa og skýr merki um vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum kalli á peningalegt aðhald.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn tölublöð.