Á fundi Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um réttarstöðu fyrirtækja við rannsókn mála í dag fjallaði Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður, um það sem hann kallaði „veiðiferðir“ stjórnvalda. Með því átti hann við það þegar eftirlitsaðilar fara í húsleit í fyrirtæki á grundvelli vísbendinga um brot á lögum en haldleggi gögn langt umfram það sem þörf er á og rannsaki þau í þaula burt séð frá því hver var skilgreind ástæða húsleitar.

Sagði hann nánast óhjákvæmilegt að einhver afrakstur yrði úr slíkri ferð. Ástæðu þess sagði hann vera að fyrirtæki störfuðu í umhverfi þar sem mikið væri um matskenndar reglur og þá tækju lög og reglur einnig sífelldum breytinum. Af þessum sökum væri ógjörningur fyrir fyrirtæki að fylgja öllum settum boðum og bönnum.