Viðskiptablaðið fjallaði um brot ríkisstofnana á reglum um yfirdrátt fyrir um ári síðan. Þar kom fram að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði fallist á að veita stofnunum fyrirgreiðslu vegna uppsafnaðra skulda en með því skilyrði að þær haldi rekstri innan ramma fjárlaga. Velferðarráðuneytið sagði að með þessu móti hefði verið spornað við frekari skuldasöfnun hjá stofnunum og svigrúm skapast til að greiða upp gamlar skuldir.

Þrátt fyrir þessar aðgerðir jókst samanlögð yfirdráttarskuld heilbrigðisstofnana um 27% á síðasta ári. Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Norðurlands voru báðar reknar með afgangi á síðasta ári, en yfirdráttarskuld þeirra jókst engu að síður milli áramóta.

Framhaldsskólar líka á yfirdrætti

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, lítur yfirdrátt hjá ríkisstofnunum alvarlegum augum. Hún segist ekki skilja hvers vegna forstöðumenn stofnana grípa til þess ráðs að skuldbinda ríkið með yfirdráttarheimild – það sé bannað.

„Núna eru nokkrir framhaldsskólar á þessu fjárlagaári að kvarta mjög yfir því að fá ekki fyrirgreiðslu frá ríkinu, fá ekki greitt til stofnananna. Þá er þessi hjáleið farin. Það er ekki annað hægt en að gagnrýna það mjög harðlega að forstöðumenn skuli fara þessa leið.“

Vigdís segir að ef allt væri með felldu í ríkisrekstrinum væri þeim lagaheimildum sem til staðar eru til að takast á við svona brot beitt. „Þá ætti þetta að vera áminningaratriði,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .