Pétur Pétursson hefur komið víða við á starfsferli sínum. Nú hefur hann hafið störf sem sölustjóri á fyrirtækjasviði Valitor á sama tíma og hann er að klára MBA nám frá Háskólanum í Reykjavík.

„Ég er með það sem einhver kallaði pungapróf í sagnfræði, en ég hef í raun og veru aldrei starfað við það. Minn bakgrunnur er að ég var fréttamaður einhvern tíman á síðustu öld, og svo hef ég verið viðloðandi markaðsmál, sölu og rekstur fyrirtækja frá árinu 1999,“ segir Pétur.

„Meginástæðan fyrir að ég fór í MBA-námið var til að halda mér ungum, kynnast nýjum sjónarmiðum og nýju fólki og fá akademískan bakgrunn fyrir það sem ég hef verið að gera síðustu 15 árin.“

Pétur er spenntur fyrir nýja starfinu hjá Valitor.

„Sú þjónusta sem við erum að veita, auk kortalána, er færsluhirðingarþjónusta fyrir söluaðila. Það er að aðstoða fyrirtæki við að taka við greiðslum með korti, fyrir seldar vörur eða þjónustu. Það sem er skemmtilegt við þetta og kannski ástæðan fyrir því að ég heillast af þessu er að markaðurinn er að taka miklum breytingum, tækniþróunin er gríðarlega ör og kallar á nýjar lausnir,“ segir Pétur.

„Greiðslur eru að færast í auknum mæli á netið, sem er kannski ekki nýtt, en það er að gerast mjög hratt núna. Það eru bæði vefsíður, öpp eða smáforrit, og greiðslumátinn er líka hægt og bítandi að færast í snjallsímann. Því til viðbótar eru fjölbreyttar kortalausnir, og líka það sem við köllum kortalausar lausnir, sem eru að líta dagsins ljós.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .