Eftirlitsstofnun EFTA hefur úrskurðað að Íslenska Gámafélagið hafi ekki hlotið ríkisaðstoð með leigusamningi Reykjavíkurborgar við félagið á landi og fasteignum á Gufunessvæðinu.

Rannsókn ESA sýnir að Íslenska Gámafélagið hafi fengið leiguverðið á markaðskjörum eða í raun hærra en svo því með skoðun á öðrum samningi um svipaða fasteign borgarinnar sem leigð var út eftir útboð kom í ljós að hún var leigð út á talsvert lægra verði en Gufunes.

Einnig framkvæmdi óháð fasteignasala mat á leigusamningnum sem var gerður árið 2005 og komst hún að því að leigan hafi verið hærri en markaðsvirði á sínum tíma.

Leigusamningurinn gerður án útboðs

„Íslenska Gámafélagið hafði ekki efnahagslegan ávinning af leigusamningum og þar af leiðandi veitti Reykjavíkurborg ekki ríkisaðstoð þegar samningurinn var gerður um Gufunes,“ segir Sven Erik Svedman, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), í dag þegar ESA lauk rannsókn á málinu.

ESA hóf rannsókn á málinu árið 2015 eftir að kvörtun barst stofnuninni. Árið 2002 eignaðist Reykjavíkurborg fasteignirnar og leigusamningurinn var gerður árið 2005 án útboðs.

Felur samningurinn í sér leigu, hreinsun og umsjón í Gufunesi sem og stuttan uppsagnarfrest, en hann hefur verið framlengdur þrisvar sinnum síðan en honum var svo sagt upp í maí 2016. Umræddar eignar hafa síðan verið seldar til kvikmyndavers.