*

mánudagur, 21. janúar 2019
Innlent 5. apríl 2018 09:32

Gamli Landsbankinn vinnur prófmál

LBI hefur unnið 11 prófmál fyrir héraðsdómi sem höfðuð voru af fyrrum eigendum hlutdeildarskírteina.

Ritstjórn
Dómsmálin voru höfðuð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur
Haraldur Guðjónsson

Gamli Landsbankinn, eða LBI eins og gamla þrotabú bankans heitir nú, vann ellefu dómsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir páska. Alls voru 223 mál höfðuð gegn þrotabúi gamla bankans en 11 þeirra voru nýtt sem prófmál. 

Um er að ræða kröfur fyrrverandi eigenda hlutdeildarskírteina í peningamarkaðssjóðum Landsvaka sem töldu sig hafa orðið fyrir tjóni vegna ólögmætra og slæmra vinnubragða bankans og starfsmanna hans. Lagði þrotabúið samtals andvirði 7,1 milljóna evra, eða sem samsvarar 865 milljóna íslenskra króna, til hliðar vegna málsins að því er segir á vef félagsins.

Kröfum stefnanda var hafnað án þess að lögfræðikostnaður þeirra fengist greiddur, en þeir hafa fjórar vikur til að áfrýja til Landsréttar. Þó héraðsdómur teldi að bankinn hefði aðhafast á hátt sem almennt mætti teljast saknæmur var niðurstaðan sú að stefnendur hefðu ekki tekist að sýna fram á að þeir hefðu orðið fyrir tjóni af háttalagi starfsmanna bankans.