Nokkrir aðilar leigja fjölda íbúða í miðbænum í skammtímaleigu til ferðamanna. Þar á meðal eru Centrum fjárfestingar, sjóður á vegum GAMMA. Hluti af íbúðum Centrum fjárfestinga er í skammtímaleigu undir vörumerkinu A Part of Reykjavík.

Þrettán íbúðir eru skráðar á vefsíðu fyrirtækisins en þeim gæti fjölgað á næstunni, meðal annars þar sem leigusamningi Stay Apartments, annars rekstraraðila íbúðarhótela, á 14 íbúðum í eigu Centrum fjárfestinga hefur verið sagt upp.

Enginn ofsagróði

Eigendur K Apartments leigja út 60 íbúðir í skammtímaleigu ásamt því að reka K-bar við Laugaveg. Þessi rekstur veltir um 550 milljónum á ári að sögn Jökuls Tómassonar, annars eigenda K Apartments. Félagið tapaði um 16 milljónum króna árið 2014.

„Það er enginn ofsagróði, eins og fjölmiðlar vilja halda fram. Þetta er náttúrulega hörkuvinna,“ segir Jökull. Félagið hefur 32 í vinnu á veitingastaðnum og við gistinguna og segir Jökull að launakostnaðurinn sé mikill. „Þegar fólk er að taka upp vasatölvu og reikna út ofsagróðann að leigja út íbúðir, þá reikna þeir þetta ekkert með. Hvorki þetta né viðhald, né nokkurt annað, sem eru stórar upphæðir hjá okkur líka.“

K Apartments hyggjast opna 26 herberja hótel á Laugavegi 41 í  sumar. Þá munu aðrar 26 íbúðir á Rauðarárstíg bætast við í desember. Samtals verður félagið þá með rúmlega 100 íbúðir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .