Fjármálafyrirtækið Gamma hyggst hefja starfsemi í New York, en félagið hefur sett á stofn sjóði fyrir erlenda aðila sem vilja fjárfesta á Íslandi.

Jafnframt segir hann enga þjóð græða meira á því en við Íslendingar að vera með alþjóðlega eignadreifingu sparnaðar síns, að því er fram kemur í Morgunblaðinu .

Sjóðirnir eru starfræktir á Írlandi og verða gerðir upp annað hvort í Evrum eða Bandaríkjadölum, eftir því hvaða mynt fjárfestar kjósa sér.

Fyrstu sjóðirnir erlendis sem sérhæfi sig í fjárfestingum á Íslandi

Gísli Hauksson, forstjóri fyrirtækisins segir fjögurra ára vinnu liggja bakvið stofnun sjóðanna, sem séu fyrstu sjóðirnir sem sérhæfa sig í fjárfestingum á Íslandi en séu staðsettir utan landsteinanna.

„Það hefur oft verið erfitt að fá erlenda aðila til þess að fjárfesta á Íslandi af því að þeir þurfa að opna vörslureikning, bankareikning, setja upp gjaldeyrislínu og svo núna að fá gulan skiptimiða hjá Seðlabankanum,“ segir Gísli í samtali við Morgunblaðið.

„Nú erum við hins vegar komin með tvo sjóði sem fjárfesta beint á Íslandi og við stýrum. Þeir eru gerðir upp bæði í evrum og Bandaríkjadölum og fjárfestar geta því valið í hvorri myntinni þeir kaupa í sjóðnum. Við skiptum svo fjárhæðinni yfir í krónur og fjárfestum í íslenskum eignum.“

Merkilegt hve Íslendingar hafa fjárfest lítið í Bandaríkjunum

Gísli segir Gamma stefna að því í byrjun næsta árs að opna skrifstofu í New York, sem liður í undirbúningi fyrir því að með niðurfellingu fjármagnshaftanna opnist betur tækifæri fyrir erlenda aðila að fjárfesta á Íslandi.

„Meginástæðan fyrir því er sú að bandarískt lagaumhverfi kallar á það að vera með starfsemi í Bandaríkjunum til þess að geta markaðssett evrópskar vörur,“ segir Gísli.

„Auk þess má segja að bandarískt hagkerfi sé á öðrum snúningi en það evrópska. Þá hafa Íslendingar, þótt merkilegt sé, ekki fjárfesti mikið í Bandaríkjunum og því er æskilegt að opna inn á þann markað.“