„GAMMA verður áfram rekið undir nafni GAMMA sem sjálfstætt dótturfélag Kviku. Markmið Kviku með kaupunum er að styrkja bankann enn frekar á sviði eigna- og sjóðastýringar og erlendrar starfsemi. Það er fyrirhugað að GAMMA starfi áfram undir merkjum GAMMA með höfuðstöðvar í Garðastræti. Þeir eru að fjárfesta í mjög öflugu sjóðstýringarfyrirtæki sem er með gott teymi af starfsfólki og er búið að byggja upp ákveðið úrval af sjóðum og sérþekkingu á ýmsum sviðum. Við sjáum tækifæri í því að tengjast öflugum og framsæknum fjárfestingabanka. Það verður ekki breyting á daglegum rekstri fyrirtækisins. Við og Kvika viljum áfram að viðskiptavinir GAMMA og væntanlegir nýir viðskiptavinir geta áfram gengið að okkar þjónustu, hvort sem það er hér heima eða erlendis, eins og verið hefur. Þannig að við munum áfram reka GAMMA með sömu markmið að leiðarljósi,“ segir Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA.

Í byrjun árs lét Gísli Hauksson, fyrrverandi forstjóri og annar af stofnendum GAMMA, af störfum hjá félaginu. Gísli er stærsti hluthafi GAMMA en hann á tæplega 31% hlut í félaginu. Aðrir stórir hluthafar í félaginu eru Agnar T. Möller sem á tæplega 30% hlut, Straumnes eignarhaldsfélag ehf. sem á tæplega 10% hlut og Volga ehf. sem á einnig tæplega 10% hlut.

Áætlað kaupverð rúmir 3,7 milljarðar

Kaupverð fyrir allt útistandandi hlutafé GAMMA mun nema 3.750 milljónum króna. Kaupverðið getur tekið breytingum til hækkunar og lækkunar eftir því hvernig rekstur og verðmæti eigna GAMMA þróast. Kaupverðið samanstendur af reiðufé að fjárhæð 1.057 milljónir króna, árangurstengdri greiðslu sem metin er á um 1.443 milljónir, hlutafé í Kviku að nafnvirði 56.124.133 hluta og árangurstengd greiðsla sem getur numið allt að 108.946.847 hlutum að nafnvirði. Í lok viðskiptadags í gær var verð hvers hlutar í Kviku á First North markaðnum 7,75 kr. Miðað við það er því virði hlutafjárins tæpar 435 milljónir króna. Virði árangurstengdra greiðslna gæti þar af leiðandi numið rúmum 844 milljónum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .