Nýsköpunarfyrirtækið Gangverk hagnaðist um 39 milljónir króna á árinu 2016 samanborið við 40 milljón króna tap árið áður. Tekjur félagsins námu 271 milljón króna miðað við 138 milljónir króna árið 2015, en rekstrarkostnaður nam 231 milljón króna.

Félagið styrkti rekstur sinn talsvert á árinu og bætti við sig starfsmönnum, en Gangverk eru með 27 starfsmenn í dag. Viðskiptavinir Gangverks eru meðal annars CBS Media, uppboðshúsið Sotheby's í Bandaríkjunum og Síminn. Sling, rekstrar- og mannauðshugbúnaður félagsins, heldur áfram að vaxa og er nú notaður af þúsundum fyrirtækja víða um heim, en þó mest í Bandaríkjunum.

95% af tekjum félagsins árið 2016 komu til að mynda frá Bandaríkjunum. Stöðug styrking íslensku krónunnar hefur veruleg áhrif á rekstur félagsins, þar sem að kostnaður er í íslenskum krónum en tekjur í erlendri mynt. „Framundan er áframhaldandi vöruþróun og uppbygging á sölu- og markaðsstarfi félagsins,“ segir í tilkynningu frá Gangverki.