Matvælastofnun barst í dag tilkynning frá Arnarlaxi um gat á nótarpoka einnar sjókvíar Arnarlax við Hringsdal í Arnarfirði.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Matvælastofnunar. Þar segir:

„Gatið uppgötvaðist við skoðun kafara í morgun og er viðgerð lokið. Samkvæmt upplýsingum Arnarlax var gatið um 15cm x 50cm og á 20 metra dýpi og voru um 157.000 laxar í kvínni með meðalþyngd 1,3 kg.“

Atvikið er til meðferðar hjá Matvælastofnun og munu eftirlitsmenn stofnunarinnar skoða aðstæður hjá fyrirtækinu og fara yfir viðbrögð þess. Arnarlax hefur lagt út net í samráði við Fiskistofu til að kanna hvort slysaslepping hafi átt sér stað."