*

laugardagur, 22. september 2018
Innlent 15. apríl 2018 13:42

GDPR kostar sveitarfélögin milljarð

Sveitarfélög á Íslandi segja að viðbótarkostnaðurinn vegna krafna persónuverndarlöggjafar ESB mikinn.

Ritstjórn
Helga Þórisdóttir er forstjóri Persónuverndar
Haraldur Guðjónsson

Ný persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins, GDPR, sem tekur gildi í sambandinu 25. maí næstkomandi, mun hafa mikinn kostnað í för með sér fyrir íslensk sveitarfélög sem og fyrirtæki að mati Sambands íslenska sveitarfélaga.

Löggjöfin mun einnig taka gildi hér á landi í gegnum EES samningana, og er stefnt að því að frumvarp þessa efnis verði að lögum hér á landi fljótlega að því er RÚV greinir frá. Sambandið hefur gagnrýnt frumvarpið, segir það hafa allt of skamman tímaramma, of háar fjársektir og vill það bíða þangað til löggjöfin verði tekin inn í EES samninginn.

Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar segir að líkt og fyrirtæki af ákveðinni stærð og gerð þurfi sveitarfélög að ráða persónuverndarfulltrúa. „Persónuverndarfulltrúar þurfa að vera starfandi hjá öllum stofnunum landsins og hjá sveitarfélögum," segir Helga.

Helmingurinn fastur kostnaður

Telma Halldórsdóttir lögfræðingur hjá Sambandi íslenska sveitarfélaga segir að byrjað sé að auglýsa störfin þó fá hafi þegar ráðið fólk í störfin.„Okkar mat er það að í besta falli eru þetta 700 milljónir fyrsta árið fyrir sveitarfélögin en líklegra í kringum 800 milljónir til milljarður,“ segir Telma. „Og að minnsta kosti helmingur af þessum kostnaði er fastur kostnaður sem mun þá haldast áfram.“

Ólafur Áki Ragnarsson sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps segir í hádegisfréttum RÚV óþolandi að verkefnum sé svona hlaðið á sveitarfélög án þess að fjármagn fylgi. Forsvarsmenn fámennra sveitarfélaga segir að ógjörningur sé fyrir þau að ráða hvert um sig eigin persónuverndarfulltrúa vegna kostnaðar, og hefur komið til tals að sameinast um starfsmenn.