Kínverska ríkisiolíufélagið CNOOC og norska ríkisolíufélagið Petoro hafa gefið eftir sérleyfi sitt til olíuleitar á Drekasvæðinu og þar með skyldum sínum um frekari olíuleit og kolvetnisrannsóknir en fyrsta hluta rannsóknaráætlunar er nú lokið.

Kínverska félagið átti 60% hlut í sérleyfi til olíuleitar en hið norska 25% hlut. Eykon Energy sem átti 15% hlut í sérleyfinu vill þó halda sínum hluta leyfisins. Orkustofnun telur Eykon Energy ekki búa yfir tæknilegri, jarðfræðilegri né fjárhagslegri getu til að takast eitt á við þá starfsemi sem í næsta áfanga rannsóknaráætlunarinnar felst. Með eftirgjöf CNOOC og Petoro á leyfinu séu því brostnar forsendur fyrir áframhaldandi gildi þess.

Eykon Energy ósammála mati Orkustofnunar

Þessu eru forsvarsmenn Eykon ósammála og telja vel mögulegt að finna áhuga hjá stórfyrirtækjum í olíuleit og vinnslu. Nú ríki minni óvissa um svæðið, að sex mögulegar lindir séu á kortinu og möguleikar miklir.

„Við höfum ekki skilað inn okkar leyfum og teljum hægt að fá aðra aðila inn með okkur,“ segir Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Eykon Energy. Á þessu stigi segir Heiðar hins vegar ekki hægt að segja hverjir þessir aðilar yrðu, en ljóst sé að tími til þess sé naumur. „Við höfum verið í sambandi við aðila sem höfðu áður lýst yfir áhuga á að koma inn og enn aðra stóra aðila sem við þekkjum.“

Hins vegar er ljóst að tíminn er knappur í ljósi skilmála leyfisins. „Það sem er sérstaklega óheppilegt og sérkennilegt er að við funduðum í nóvember til að taka ákvörðun um framhaldið. Á honum var ákveðið að fara í grunnboranir og frekari vinnu og skila ekki inn leyfinu. Núna, degi áður en frestur rennur úr, ákveður CNOOC að skila inn leyfinu og Petoro fylgir á eftir,“ segir Heiðar. Í dag lauk fjögurra ára tímabili til að taka tvívíðar hljóðbylgjumyndir af Drekasvæðinu.

Þá segir jafnframt í tilkynningunni frá Eykon að það komi á óvart að bæði CNOOC og Petoro skuli nú vijla úr samstarfinu í kjölfar formlegs fundar félaganna í nóvember, þar sem fulltrúar Orkustofnunar voru viðstaddir. Þar hafi verið samþykkt af öllum leyfishöfum að biðja Orkustofnun um tveggja ára framlengingu á fyrsta leyfistímabili, til að bæta vinnslu endurvarpsmælinga, taka sýni af hafsbotni og fara í grunnar boranir.

Næsti fasi leyfisins hófst að sögn Heiðars í dag. „Þá þarf að vera búið að taka ákvörðun um hvaða vinnu við ætlum að gera. Sá fundur var fundurinn í nóvember. En svo núna, á síðustu sekúndum sem hægt var að taka ákvörðun um eitthvað annað ákveður CNOOC að gera það. Þannig að þetta kemur okkur á óvart,“ segir Heiðar, sem hefur ekki skýringar á því hvers vegna CNOOC ákvað að draga sig út úr verkefninu. „Þetta er svo mikil stefnubreyting allt í einu. Ef eitthvað er er olíuverð og allar aðstæður meira með okkur nú en í sumar. Þá spyr maður sig hvort þetta sé eitthvað pólitískt, segir Heiðar, en í frétt í Viðskiptablaðinu 11. janúar lýsti umhverfisráðherra því yfir að hann legðist gegn olíuvinnslu. „Yfirlýsingar síðustu tveggja umhverfisráðherra hafa ekki verið heppilegar fyrir þá sem ætla að vera í olíuvinnslu hér. Það sem er hins vegar sérkennilegt er að árið 2012 markaðssetti íslenska ríkið þetta. Síðan þegar er búið að veita leyfin fara menn allt í einu að vera á móti þessu. Það er ekki fagleg stjórnun,“ segir Heiðar.

Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um samþykkt norska þingið í desember síðastliðnum að veita 30 milljónum norskra króna til áframhaldandi leitar að olíu á íslenska hluta Drekasvæðisins.