Alþjóðlega hrávöru- og námufyrirtækið Glencore hyggst halda aftur af kolaframleiðslu vegna þrýstings frá stórum fjárfestum um að fyrirtæki á sviði náttúruauðlinda geri meira til að stemma stigu við hnattrænum loftslagsbreytingum.

Glencore er stærsti útflytjandi kola í heiminum og einn stærsti framleiðandinn utan Kína. Fyrirtækið hafði áður lýst yfir trú sinni á að kolaverð myndi fara hækkandi á næstunni, og framkvæmdastjóri félagsins, Ivan Glasenberg, hefur verið ötull talsmaður ágætis þess.

Félagið mun ekki hætta kolaframleiðslu sinni alfarið – líkt og einn helsti samkeppnisaðili þess, Rio Tinto – en mun setja sér hámark upp á 150 milljón tonn á ári, sem er um það bil sú framleiðsla sem fyrirhuguð hafði verið fyrir árið 2019. Fyrirhugað er þó að framleiðsla í þeim námum sem fyrirtækið rekur nú þegar haldi áfram í að minnsta kosti 15 ár til viðbótar. Helsta stefnubreytingin felst því í að með ákvörðuninni er frekari framleiðsluaukning útilokuð.

Financial Times segir ákvörðunina líklega til að koma kolaiðnaðinum í opna skjöldu, vegna ofangreindrar afstöðu félagsins til kolaframleiðslu hingað til.

Kolaverð er nú um 90 dollarar á tonnið, en náði 115 dollurum í fyrra, um 60% hækkun frá lágpunkti þess í maí 2017. Ljóst er að ákvörðun Glencore mun að öðru óbreyttu þýða minna framboð en spáð hafði verið, og gæti því verið til þess fallin að hækka kolaverð.