Almenna leigufélagið efnir til útboðs á skuldabréfum fyrir allt að 3 milljarða króna að nafnvirði næstkomandi miðvikudag.

Um er að ræða verðtryggð skuldabréf með fastri 3,60% ávöxtunarkröfu í flokknum AL260138. Greiðslu og uppgjörsdagur er fimmtudaginn 3. maí 2018 að því er segir í fréttatilkynningu. Markaðsviðskipti Landsbankans hafa umsjón með útboðinu en tilgangur útgáfunnar er endurfjármögnun á hluta núverandi skulda og fjármögnun nýrra fjárfestinga.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hefur félagið gengið frá kaupum á ríflega 3 þúsund fermetrum af hótelíbúðum í miðbæ Reykjavíkur á 2,6 milljarða íslenskra króna. Félagið hefur áður gefið út skuldabréf í sama flokki að nafnvirði 6.040 milljónir króna sem hafa verið tekin á viðskipti á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland.