Rússnesk stjórnvöld hófu í dag útgáfu á ríkisskuldabréfum fyrir um sex milljarða dollara. Fjármálaráðuneyti landsins greindi frá þessu fyrr í dag samkvæmt frétt Financial Times.

Er þetta fyrsta skuldabréfaútgáfa rússneska ríkisins frá því að mörg vestræn ríki lögðu viðskiptabann á landið eftir innrás Rússa á Krímskaga árið 2014.

Skuldabréfin sem gefin voru út eru annars vegar til 10 ára og bera 4,25% vexti og hins vegar til 30 ára og bera þau bréf 5,25% vexti.

Skuldabréfaútgáfan sem hófst í dag mun standa fram á fimmtudag. Anton Siluanov fjármálaráðherra Rússlands hefur gefið það út að markmiðið með útgáfuni sé að safna nýju fjármagni fyrir þrjá milljarða dollara og endurfjármagna skuldir upp á fjóra milljarða.