Nýr hnappur á Facebook-síðum góðgerðasamtaka mun gera notendum kleift að gefa fé á ofureinfaldan hátt.

Nýja kerfið hefur hlotið nafnið 'fundraisers' sem þýðir einfaldlega fjársöfnun. Þá geta góðgerðasamtök á borð við WWF (World Wildlife Fund) eða UNICEF haft hnapp á síðu sinni, sem notendur geta gefið fjármagn í gegnum hratt og örugglega.

Eins og stendur eru aðeins 37 góðgerðasamtök sem fá að prófa kerfið, en með tíma verður það opið fleirum.

Mark Zuckerberg, stofnandi samfélagsmiðlarisans, hefur nýlega gefið milljónir bandaríkjadala til góðgerðasamtaka, en hann skrifaði undir skjal þar sem hann skuldbatt sig til að gefa að minnsta kosti helming auðæfa sinna til góðgerðamála.