Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði við síðustu vaxtaákvörðun Seðlabankans að bindiskylda bankans hefðu dregið úr sveiflum á gjaldeyrismarkaði. „Hefði hún ekki verið virk hefði gengi krónunnar risið meira og flöktið í krónunni verið meira,“ sagði Már.

Bindiskyldan var innleidd í júní árið 2016 og felur í sér að 40% af fjárfestingum erlendra aðila í skráðum skuldabréfum og innlánum í krónum eru bundin á vaxtalausum reikningi hjá Seðlabanka Íslands í eitt ár.

Seðlabankastjóri gagnrýndi einnig þá sem kvörtuðu undan háu gengi krónunnar en kölluðu jafnframt eftir afnámi bindiskyldunnar. „Ég skil það þegar um er að ræða fjármálafyrirtæki sem ætla að hafa tekjur af því að þarna komi inn mikið innstreymi en þegar um er að ræða þá sem í hinu orðinu kvarta yfir háu gengi þá skilur maður það ekki alveg,“ sagði Már.

Már bætti við að dregið hefði úr vaxtamun milli Íslands og helstu viðskiptalanda. Spennan í íslenska hagkerfinu væri að minnka á sama tíma og dregið hefði úr slaka erlendis. Hins vegar væri munurinn enn töluverður og því ekki tilefni til að slaka á bindiskyldunni að svo stöddu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .