Tækni- og sprotafyrirtækið Genki Instruments hefur opnað fyrir forpantanir á sinni fyrstu vöru, Wave, eftir tveggja ára vöruþróunarferli. Wave er fingurhringur sem er hannaður fyrir tónlistarfólk og gerir því kleift að hafa áhrif á tónlistarsköpun og -flutning í rauntíma.

„Wave nemur hreyfingar handarinnar, snúning og slátt. Það fylgir hugbúnaður með vörunni sem þú setur í tölvuna og þar ákveður þú algjörlega eftir eigin höfði hvaða hljóð eða skipanir hreyfingarnar ná til. Þannig er hægt að breyta hljóði eða setja af stað skipanir með hreyfingum á auðveldan hátt, en einnig eru þrír takkar á hringnum sem gera þér kleift að hafa smá stjórn á tækinu,“ segir Haraldur Hugosson, þróunarstjóri Genki Instruments. Wave er samhæft við öll Bluetooth-tæki og hægt er að spila með Wave í gegnum hvaða tónlistarhugbúnað sem er.

Haraldur segir ávinninginn af Wave vera þríþættan:

  • „Tónlistarsköpun á sér stað í auknum mæli í tölvu og öðrum snjalltækjum, en þar hefur vantað þessar náttúrulegu tjáningarhreyfingar sem fylgja því að spila á hefðbundin hljóðfæri. Wave gerir tónlistarfólki kleift að ná betri tengslum við áhorfendur á tónleikum með náttúrulegri og sýnilegri hreyfingum.
  • Wave gerir þér einnig kleift að halda flæðinu í sköpunarferlinu; þú þarft ekki að fara fram og til baka í tölvuna til að stilla eitthvað og fara svo aftur af stað.
  • Loks bætir Wave við stýrimöguleikum á þeim búnaði sem þú ert að nota í tónlistarsköpun og gefur nákvæmari skipanir. Í stað þess að taka höndina af til dæmis lyklaborði og ýta á einhvern sérstakan takka til að fá „reverb“ getur þú gert það einfaldlega með því að lyfta upp hendinni.“

Fer á markað næsta vor

Wave verður notað í fyrsta skipti á tónleikum á Iceland Airwaves í byrjun nóvember. Genki Instruments vinnur nú að lokaþróun á vörunni, sem fer svo á almennan markað næsta vor, en hér má sjá kynningarmyndband um tækið.

„Með tíð og tíma ætlum við síðan í útrás með Wave. Við erum með fullt af hugmyndum að öðrum vörum og teljum mörg tækifæri til staðar í tónlistartækni. En við ætlum að einbeita okkur að Wave. Ef við náum að gera það vel verður allt hitt auðveldara. Einnig höfum kannað hvernig við getum notað Wave í eitthvað annað en tónlist,“ segir Haraldur.

„Við erum á þessari vegferð að miklu leyti til að búa til þekkingu á tónlistartækni á Íslandi. Það er mikil vitneskja á tónlist og tónlistarsköpun hérna en hingað til hefur ekki verið til fyrirtæki í kringum það. Við vonumst til að vaxa með íslensku tónlistarfólki og leyfa því að njóta góðs af því ef vel gengur.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .

Wave hringurinn frá Genki Instruments nemur hreyfingar handarinnar og er nýttur í tónlistarsköpun.
Wave hringurinn frá Genki Instruments nemur hreyfingar handarinnar og er nýttur í tónlistarsköpun.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Wave hringurinn frá Genki Instruments nemur hreyfingar handarinnar og er nýttur í tónlistarsköpun.
Wave hringurinn frá Genki Instruments nemur hreyfingar handarinnar og er nýttur í tónlistarsköpun.
© Aðsend mynd (AÐSEND)