Eftir nálega fimm ára ferðalag, tóks Juno geimfari geimferðastofnunar Bandaríkjanna, NASA, að komast á sporbaug í kringum Júpiter í nótt.

Mun svara mörgum spurningum

Sendi ómannaða geimfarið frá sér merki um að aðalvél þess hefði verið gangsett til að koma því á örugga sporbraut í kringum þennan stærsta hnött sólkerfisins. Eftir 35 mínútna bruna aðalvélarinnar komst geimfarið á nákvæmlega þá sporbraut sem ætlast hefði verið til.

Á fréttamannafundi tók Rick Nybakken, verkefnastjóri Juno geimfarsins, sig til og reif í sundur blað sem á stóð tilbúin yfirlýsing ef aðgerðin hefði misheppnast. „Við þurfum ekki á henni að halda,“ sagði hann.

Á næstu dögum og vikum munu nemar geimfarsins vera gangsettir á ný eftir að hafa verið slökkt á þeim áður en farinu var komið á rétta braut. Eru væntingar um að geimfarið geti svarað mörgum spurningum um hnöttinn, meðal annars um kjarnann en lítið er vitað um hann.

Talið er að Júpíter hafi orðið til fyrir 4,5 milljörðum ára, en Juno er ætlað að skanna plánetuna og afhjúpa áður óþekktar staðreyndir um meðal annars veðráttur og efnasamsetningu Júpiters. Juno kostaði meira en 1,1 milljarð Bandaríkjadala eða um 132 milljarða íslenskra króna.

Júpíter er gífurstór gasrisi og er nefndur eftir himingoðinu Jupiter úr rómverskri goðafræði - sem hefur hinn forngríska Seif að fyrirmynd. Eiginkona Jupiter hét þá einmitt Juno, og má þá gera ráð fyrir að nafnagift NASA hafi verið skírskotun í goðafræðina.

Hér að neðan má sjá tíst NASA með myndbandi af starfsfólki í stjórnstöðinni: