Hlutabréfaverð tæknirisans Apple hefur náð sínum lægsta punkti í tæp tvö ár. Verð á hvern hlut fyrirtækisins er þá 92,7 Bandaríkjadalir og hefur fallið um 12% á árinu. Það var síðast svo lágt í júní árið 2014. Fréttaveita CNN Money fjallar um þetta.

Hlutabréf Apple eru vinsæl meðal sjálfstæðra einstaklingsfjárfesta. Margir hafa losað sig við eignir sínar í fyrirtækinu eftir að það birti sinn fyrsta sölusamdrátt síðan 2003 nú á dögunum - en sala á iPhone snjallsímanum hefur dregist talsvert saman.

Fyrir skömmu síðan seldi Carl Icahn eignir sínar í Apple, en hann hefur verið ein helsta klappstýra hlutabréfa fyrirtækisins á síðustu árum. Hann kenndi erfiðum markaðsaðstæðum í Kína um samdráttinn sem fyrr var nefndur. Hann segir Apple enn vera frábært fyrirtæki en telur að bregðast þurfi við stöðunni í Kína.