Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur segir í nýlegri grein að það sé engum blöðum um það að fletta að núverandi gengi krónunnar sé falsað af hálfu Seðlabanka Íslands.

Rétt markaðsgengi krónunnar sé mun hærra, en allt frá árinu 2011 hafi bankinn keypt gjaldeyri til að koma í veg fyrir gengisstyrkingu.

Kaupir rúmlega helming gjaldeyris

„ Það sést best af því að heildarvelta á gjaldeyrismarkaði fyrstu átta mánuði ársins var 472 milljarðar og af þeirri veltu keypti Seðlabankinn 266 milljarða eða 56%,“ segir Ásgeir í greininni.

„Þetta eru svo til sömu tölur og allt árið í fyrra (heildarvelta 493 og 272 milljarða kaup SÍ) en samt eiga 4 mánuðir eftir að birtast í tölunum og ljóst að fjárstreymið fer vaxandi. Seðlabankinn hefur samhliða gripið til hafta (undir nýju nafni) í formi bindiskyldu á erlent gjaldeyrisinnflæði.“

Krónan féll í raun um 80%

Þetta sé afleiðing af því að gjaldeyri hafi byrjað að snjóa inn í landið eins og hann orðar það í kjölfar þess að ofurvöxtur hafi hafist í ferðaþjónustu árið 2011. Þá hafi ástandið snúist snögglega við frá því sem áður hafi gengið á.

„Árið 2008 féll íslenska krónan um 50% áður en gengisfallið var stöðvað með fjármagnshöftum. Í frjálsum viðskiptum (á aflandsmarkaði) var fallið mun meira eða 75-80%,“ segir Ásgeir.

„Seðlabankinn var næstu 5 ár upptekinn í því verkefni að halda uppi skráðu gengi [krónunnar] en var óneitanlega í þröngri stöðu með nær engan óskuldsettan forða.“

Þreyttust á að lána Íslendingum til að kaupa dót

Jafnframt segir hann að hverjum byrjenda í hagfræði ætti að vera ljóst af hverju gengi krónunnar hafi fallið:

„Ísland var með 20-30% viðskiptahalla m.v. landsframleiðslu sem var fjármagnaður með vaxtamunaviðskiptum. Á einhverjum tímapunkti hlutu erlendir fjárfestar að þreytast á því að lána Íslendingum pening til þess að kaupa dót. Þegar það síðan gerðist var það með þeim ósköpum að bankaáhlaup hófst,“ segir Ásgeir.

„Í litlu hagkerfi eru gjaldeyriskreppur og bankakreppur ávallt tengdar – enda þegar peningar flýja bankana leita þeir vitaskuld úr landi. Þannig var gengisfall krónunnar svo gríðarlegt þegar loks kom að skuldadögunum.“

Viðskiptaafgangur einstakur í Íslandssögunni

Ásgeir segir að allt frá lokum seinna stríðs og fram að bankahruni hafi viðskipti við útlönd verið með halla hérlendis, oft verulegan.

„Síðustu ár eru því einstök – Ísland er með viðskiptaafgang. Það er breyting. Ef litið er 4 ársfjórðunga aftur í tímann þá  voru þjónustuviðskiptin við útlönd með um 208 milljarða afgangi en vöruskiptin með 91 milljarðs halla,“ segir Ásgeir.

„Þannig ef litið er á Ísland sem fyrirtæki þá er landið að skila um 117 milljarða framlegð.“

Ísland vin í vaxtalausum heimi

Ásgeir bendir á að þó að vaxtastigið hérlendis hafi lækkað hafi þeir einnig gert það erlendis og því sé vaxtamunurinn við útlönd nálægt því sami og fyrir hrun.

„Að því leyti hefur ekkert breyst – Ísland er enn vin í vaxtalausum heimi,“ segir Ásgeir.

„Á árunum fyrir hrun var viðskiptajöfnuður neikvæður en fjármagnsjöfnuður jákvæður. Nú er hins vegar viðskiptajöfnuður jákvæður sem og fjármagnsjöfnuður. Í stað þess að ein ástæða sé til gengisstyrkingar eru nú tvær ástæður.“

Getur eingöngu hægt á styrkingunni

Ásgeir nefnir þau skilaboð Seðlabankans að bankinn geti ekki staðið á móti áframhaldandi styrkingu krónunnar, aðeins hægt á henni með því að halda áfram að kaupa rúman helming gjaldeyrisinnflæðisins, meðal annars vegna þess að viðhald gjaldeyrisforða sé mjög kostnaðarsamt.

Auk þess séu sífelld gjaldeyriskaup þensluvaldandi því þau fylli fjármálakerfið af lausafé.

Fimmtungsaukning kaupmáttar

„Þannig skýrist um 20% hækkun almenns kaupmáttar frá ársbyrjun 2014 til þessa dags (ef miðað er við launavísitölu) einkum af hækkandi gengisskráningu. Þannig er almenningur að hagnast á vexti ferðaþjónustunnar,“ segir Ásgeir.

„Hins vegar rýrir hátt gengi samkeppnisstöðu útflutningsgreina með verulega neikvæðum áhrifum á þjóðarhag til skamms og meðallangs tíma. Það er þó ekki að fullu ljóst hvað ferðaþjónustan þolir raunverulega hátt gengi.“

Fjármagnsútflæði orðið eftirsóknarvert

Segir hann því ljóst að fjármagnsútflæði úr landi séu ekki lengur áhættuþáttur heldur eftirsóknarvert markmið.

„Það verkefni hlýtur að miklu leyti að skrifast á lífeyrissjóðina, hverra erlenda eignastaða er aðeins 25%,“ segir Ásgeir.

„Eina leiðin til þess að hægt sé að viðhalda viðskiptaafgangi er að vera með neikvæðan fjármagnsjöfnuð svo greiðslujöfnuður sé í jafnvægi og markaðskraftarnir hætti að þrýsta á styrkingu gengisins.“