Gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal er nú hærra en það var fyrir hrun. Í kjölfar hrunsins fór gengið hæst í 147,98 krónur þann 3. desember árið 2008, en miðað við kaupgengið núna er gengið komið undir það sem það var 9. október 2008, þegar það var 105,42 krónur miðað við meðalgengi Seðlabankans.

Ræða Geirs H. Haarde þar sem hann óskaði Guðs blessunar yfir Íslandi var 6. október það sama ár, en þá var gengi Bandaríkjadals gagnvart krónunni 114,26 krónur. Mánudeginum á undan, 29. september, þegar Glitnir féll, fyrstur bankanna, var gengið 99,52 krónur. Miða margir við þessar dagsetningar sem upphaf hrunsins.

Fram til áramóta 2008 og 2009 reiknaði Seðlabankinn vísitölu gengisskráningar sem er vegið meðaltal af gengi helstu gjaldmiðla gagnvart krónu, þannig að hækkun hennar tákni lækkun á verðmæti íslensku krónunnar.

Þó bankinn hafi hætt útreikningum hennar þá heldur vefmiðillinn m5.is henni út áfram, og stendur hún nú í 158,16 stigum, sem er hærra gildi en fyrir nálega akkúrat níu árum síðan eða svo, það er þann 9. maí árið 2008, nokkrum mánuðum fyrir hrunið. Þá var hún í 158,011 stigum.