Töluverðar sviptingar hafa verið á hlutabréfamarkaðnum í dag í kjölfar stýrivaxtaákvörðunar peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Hafa fasteigna- og tryggingafélögin ásamt olíufélögunum lækkað í verði, meðan útflutningsfyrirtækin hafa hækkað. Þegar þetta er skrifað hefur úrvalsvísitalan lækkað um 0,51% enda langflest félög að lækka.

Þrátt fyrir að peningastefnunefnd Seðlabankans hafi ákveðið að halda vöxtunum óbreyttum hefur ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hækkað um fimm punkta að meðaltali, eða á bilinu tveggja allt upp í 11 punkta.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá , hefur krónan veikst frá því ákvörðunin var birt í morgun gagnvart helstu viðskiptamyntum sínum. Eins og staðan er á markaði þegar þetta er skrifað hefur gengi Regins lækkað mest, eða sem nemur 3,44% í 125 milljón króna viðskiptum.

Lækkun Regins rakin til frétta

Markaðsaðilar sem Viðskiptablaðið ræddi um segja ástæðuna megi mögulega rekja til frétta frá í morgun um hvernig gangi að leigja út rými í Smáralindinni sem er stærsta einstaka eign fyrirtækisins.

Aðrir benda á að fasteignafélögin hafa verið að lækka á lengra tímabili, sem og að þau séu næm fyrir breytingum á ávöxtunarkröfunni, en með hærri ávöxtunarkröfu sé fjármagnskostnaður þeirra hærri. Fasteignafélagið Eik hefur einnig lækkað í morgun, eða um 2,87% í meiri viðskiptum, sem námu 351 milljónum króna. Reitir lækkuðu einnig, eða um 2,72% í enn meiri viðskiptum, eða fyrir 414 milljónir.

Tryggingafélög einnig næm fyrir ávöxtunarkröfu

Önnur félög sem hafa lækkað nokkuð í verði má nefna tryggingafélögin Sjóvá og VÍS, en þau eru einnig næm fyrir ávöxtunarkröfunni á markaði, enda stór hluti eignasafns þeirra í skuldabréfum og öðrum eignaflokkum sem taka mið af ávöxtunarkröfunni á markaði.

Nokkur félög sem hafa svo enn sem komið er staðið í stað eru til að mynda N1, Fjarskipti, móðurfélag Vodafone og Eimskip, en fyrr í dag hafði gengi bréfa þess félags hækkað nokkuð.

Þau félög sem hafa hækkað það sem af er viðskiptadegi eru Icelandair með 0,93% hækkun í 282 milljón króna viðskiptum, Nýherji um 0,48% í mjög litlum viðskiptum og loks Marel um 0,14% í 342 milljón króna viðskiptum.