Íbúar Zimbabwe ganga til þing- og forsetakosninga í dag í fyrsta skipti síðan Robert Mugabe, sem hafði stjórnað landinu í 37 ár, var steypt af stóli af hernum í fyrra. Þótt reglulega hafi verið kosið í stjórnartíð Mugabe einkenndust þær kosningar af pólitísku ofbeldi og tortryggni í garð niðurstaða þeirra.

Mikil bjartsýni ríkir því um að loksins hafi nú verið komið á trúverðugu lýðræði, en úrskurður alþjóðlegra eftirlitsaðila mun skipta sköpum um hvort þróunarlandið, sem hefur mátt þola mikla efnahagslega erfiðleika, fær þróunaraðstoð og utanaðkomandi fjárfestingu.

Talsmenn stjórnvalda segja nýja kosningatækni koma í veg fyrir kosningasvindl, og stjórnarandstaðan hefur fengið að heyja sína kosningabaráttu óhindruð. Ásakanir hafa þó komið fram um atkvæðakaup og hótanir.

Kjósendur hafa beðið í röðum frá því í nótt, en afar mjótt er á munum milli tveggja fremstu forsetaframbjóðendanna, og enn var um fimmtungur óákveðinn samkvæmt nýjustu könnunum. Annar þeirra er frambjóðandi Zanu-PF, flokks Mugabe, en hinn er úr stærsta stjórnarandstöðuflokknum, MDC.

Eftir að hafa verið komið frá völdum í fyrra hefur Mugabe lítið tjáð sig, en hann kom mörgum að óvörum í gær þegar hann lýsti yfir stuðningi við frambjóðanda MDC, og sagðist ekki geta „kosið kvalara sína“: sinn gamla flokk, Zanu-PF.