*

miðvikudagur, 22. ágúst 2018
Innlent 12. október 2017 10:50

Gengu kannski of langt í málamiðlun

Katrín Jakobsdóttir vill ná sátt á vinnumarkaði og sátt um skattkerfið. Jafnvægi þarf að hennar mati að vera milli niðurgreiðslu skulda ríkisins og innviðafjárfestingar.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Fylgi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (VG) hefur farið með himinskautum í skoð­anakönnunum í aðdraganda al­þingiskosninga sem verða 28. október. Augu flestra beinast því að Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, þegar talið berst að því hver verði í forsæti fyrir næstu ríkisstjórn. VG mælast með upp undir 30% fylgi í skoðanakönnunum. Katrín telur að á því geti verið margar skýringar.

„Ég þakka þetta aðallega því að ég held að fólk upplifi að við höfum verið nokkuð samkvæm sjálfum okkur í okkar stefnu. Þessi hreyfing hefur auðvitað gengið í gegnum ákveðið breytingaskeið undanfarin ár. Við fórum illa út úr kosningum 2013 og þurftum að taka okkur taki í okkar innra starfi og endurskoða okkur.

Ég held í fyrsta lagi að það sé að skila sér og í öðru lagi held ég satt að segja að eftir síðustu kosningar, þar sem var mjög mikil umræða um uppbyggingu samfélagslegra innviða og heilbrigðiskerfið var stóra málið, sem og skólamál og kjör aldraðra og öryrkja, innviðir sem fólki finnst að eigi að byggjast hraðar upp í ljósi stöðunnar í efnahagsmálum – í ljósi þessarar umræðu held ég að fólk hafi upplifað að fráfarandi ríkisstjórn hafi ekki staðið við stóru orðin.

Það kom líka mjög skýrt í ljós í stjórnarmyndunarviðræðum að við vildum ekki fara inn í ríkisstjórn nema geta staðið undir því sem við höfðum sagt í aðdraganda kosninga. Þó að við höfum líka verið gagnrýnd mjög harkalega fyrir það þá held ég að það hafi líka skilað sér í þessum aukna stuðningi.“

Katrín vill leiða ríkisstjórn sem tekur á stóru málunum og mótar sýn án þess að fara í risastórar kollsteypur. Ákall er um pólitískan stöðugleika, ríkisstjórn í fjögur ár og meira samtal um hvert eigi að stefna.

Nokkuð hefur borið á að fólk segi VG umhverfisverndarflokk á höfuð­borgarsvæðinu en ekki á landsbyggðinni og vísa til dæmis til stóriðjuframkvæmda sem hófust í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og VG.

„VG hefur alla tíð verið umhverfisverndarflokkur. Tökum Kárahnjúkavirkjun sem dæmi þegar við stóðum mjög einörð gegn henni. Þegar við vorum í ríkisstjórn var atvinnuleysi nálægt 10%. Það var alveg gríðarlegur þrýstingur um að hjólum atvinnulífsins yrði snúið af stað. Það voru fyrirætlanir um álver í Helguvík og álver á Bakka sem hefði krafist tífalt meiri orku en þetta kísilver sem var ákveðið að fallast á að setja niður.

Ég hef ítrekað sagt að þetta hafi verið málamiðlun og kannski gengum við of langt í málamiðlun gagnvart okkar samstarfsfólki í ríkisstjórn og aðilum vinnumarkaðarins af því fólk hefur gagnrýnt okkur og skammað fyrir þetta og ég skil það alveg. En þetta eru kringumstæðurnar, svo maður færi þær fram sér til varnar. Ég held hins vegar að við séum komin á þann stað að við þurfum að taka ákvörðun um það og greina hve mikla orku við ætlum að nýta á næstu árum og áratugum og í hvað sú orka á að fara.

Ég held að við eigum ekki að vera á einhverri sjálfstýringu að það eigi að færa endalaust yfir í nýtingarflokk og virkja af því bara. Við eigum að segja að við erum ekki að fara í meiri stóriðju og ég met það þannig að það sé dalandi pólitískur áhugi á stóriðju í ljósi stöðunnar í efnahagsmálum og ferðaþjónustunnar. Við þurfum að draga línu í sandinn um hvert við erum að fara í orkumálum og við eigum að einhenda okkur í það að ráðast í orkuskipti og þannig ná kolefnishlutleysi sem væri lengra gengið en skuldbindingar okkar í Parísarsáttmálanum. Og við höfum einstakt tækifæri til þess.“ 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.