Georg Andersen, forstjóri Inkasso, kefur keypt meirihluta í fyrirtækinu af Haraldi Leifssyni. Gengið hefur verið frá kaupum Georgs á 55,42% hlut í Kaptura, móðurfélagi Inkasso. Kaupandi er félag sem er alfarið í eigu Georgs. Fyrir átti Georg 4% í Inkasso og er hann því orðinn stærsti eigandi fyrirtækisins með tæpan 60% eignarhlut. Kaupverðið er trúnaðarmál.

Í framhaldi af breytingum á eignarhaldi Inkasso var á aðalfundi kosin ný stjórn fyrirtækisins og hverfur Haraldur Leifsson úr sæti stjórnarformanns og í stað hans kemur Emil Helgi Lárusson. Haraldi eru þökkuð vel unnin störf en hann er einn af stofnendum Inkasso.

Haft er eftir Georgi Andersen, forstjóra Inkasso, að framundan séu spennandi tímann. Hann greip tækifærið um leið og Haraldur lét í ljós að hann hefði áhuga á að selja hlut sinn. Innkoma Inkasso hafði að sögn Georgs haft mikil áhrif á innheimtumarkaðinn á sínum tíma og hefur fyrirtækið áhuga á því að auka og bæta enn við þá þjónustu á næstu árum.