Bandaríski fjárfestirinn George Soros hefur keypt kröfur á Glitni fyrir tugi milljarða og er þannig kominn í hóp á meðal stærstu kröfuhafa slitabúsins, kemur þetta fram í frétt DV . Vogunarsjóður í eigu Soros eignaðist almennar kröfur á Glitni í desember og janúar síðastliðnum fyrir tæplega 46 milljarða króna að nafnvirði, samkvæmt nýrri kröfuskrá slitabúsins.

Er sjóðurinn, sem heitir Quantum Partners LP, í kjölfarið í kringum tíundi stærsti einstaki kröfuhafi Glitnis. Miðað við að almennar kröfur á Glitni ganga nú kaupum og sölum á um 27–29% af nafnvirði má áætla að markaðsvirði krafna í eigu vogunarsjóðs Soros séu um 13 milljarðar króna. Kröfur í eigu Quantum Partners eru um 2% allra samþykktra krafna á hendur slitabúi Glitnis en þær námu samtals 2.270 milljörðum króna undir lok síðasta árs.