Íslenska jarðvarmafyrirtækið Varmaorka hefur gengið frá fyrsta áfanga fjármögnunar og kaupa á búnaði undir lághita jarðvarmavirkjanir hér á landi. Sænska fyrirtækið Climeon mun sjá Varmaorku fyrir búnaði.

Í fyrsta áfanga á að afhenda sjö framleiðslueiningar. Alls kveður samningurinn á um afhendingu á hundrað framleiðslueiningum sem kosta mun ríflega 30 milljónir evra, nærri 4 milljarða króna. Sænska fyrirtækið Baseload Capital Sweden AB, mun fjármagna verkefnið með hlutafjárframlagi og lánum að því er kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækjunum.

Varmaorka stefnir á að hefja 1MW framleiðslu á þessu ári en bæta við framleiðslu á 10 til 15 svæðum til viðbótar á næstu tveimur og hálfu ári þannig að framleiðslan nái 15MW. Fréttablaðið greindi nýlega frá því að fyrirtækið hefði náð samkomulagi við Hrunamannahrepp og Hitaveitu Flúða um framleiðslu rafmagns úr lághita.

Í tilkynningu segir Ingvar Garðarsson, stjórnarformaður Varmaorku, vera afar ánægður með samstarfið við Climeon og ekki síður að hafa fengið Baseload Capital til liðs við verkefnið og þannig tekist að ljúka mikilvægasta áfanga verkefnisins, fjármögnuninni.