Norsk samkeppnisyfirvöld hafa tilkynnt Eimskip um að þau geri athugasemdir við kaup Eimskip á norska flutningafyrirtækinu Nor Lines AS. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Eimskip til Kauphallarinnar.

Þar segir að um sé að ræða bráðabirgðaúrskurð en nú hefur Eimskip 15 viðskiptadaga til að koma með gagntillögur varðandi kaupin á Nor Lines og í framhaldi af því hafa samkeppnisyfirvöld aðra 15 viðskiptadaga til að úrskurða endanlega um ákvörðun sína.

Eimskip vinnur að því að meta stöðuna með lögfræðingum sínum. Tilkynnt var um kaupin síðastliðinn nóvember.