Reykjavíkurborg óskaði eftir því að Orkuveita Reykjavíkur uppfærði fjárhagsáætlun samstæðunnar vegna breyttra forsenda í þjóðhagsspá Hagstofunnar sem var gefin út 13. nóvember.

Tekjur næsta árs munu því lækka um því sem nemur 597 milljónum króna samkvæmt uppfærðri fjárhagsáætlun. Meðalbreyting í tekjum OR næstu 5 árin er tekjulækkun um 1,7 milljarð króna.

Þó er gert ráð fyrir að tekjur fari hækkandi eftir því sem árin líða - aðeins er talið að áætlaðar tekjur verði lægri en búist var við.

Það sama gildir um afkomuspár samstæðunnar. Afkoma  mun samkvæmt spám aukast um 3 milljarða á næsta ári og hálfan milljarð 2017, en mun þar á eftir verða minni en búist var við.

Helstu forsendur breytingar eru vísitala neysluverðs, byggingarvísitala, launavísitala og gengisvísitala, en samkvæmt Hagstofu munu vísitölur neyslu, byggingar, og gengis lækka næstu fimm árin meðan launavísitala hækkar.